Opinberar tölur sýna að Bandaríkjamenn hafi flutt inn 8,92 milljónir tunna af hráolíu í síðustu viku. Um er að ræða mesta magn á innfluttri hráolíu í nánast fjögur ár.

Tölurnar benda til þess að framleiðsla hafi dregist saman í Bandaríkjunum. Samkvæmt fréttaveitu Bloomberg, mun meirihluti innfluttrar hráolíu fara í olíuhreinsistöðvar við Mexíkóflóa og í Kaliforníu.

Miklar lækkanir hafa orðið á hráolíu undanfarin ár, enda hefur framleiðsla aldrei verið meiri. Tunnan er nú undir 50 dölum og telja greiningaraðilar að verðið muni haldast um 50 dalina í náinni framtíð.

Fyrr í vikunni greindi Viðskiptablaðið frá því að helsti ráðgjafi Shell reikni með því að markaðir haldist í miklu ójafnvægi fram á síðari hluta næsta árs.