Þrátt fyrir að Bandaríkjamenn séu tiltölulega svartsýnir á gang mála í efnahagslífi landsins þá segist meirihluti landsmanna vera bjartsýnn á það hvernig þeim og fjölskyldum þeirra muni vegna á árinu 2013. 69% segjast í könnun Gallup vera bjartsýn á meðan 27% eru svartsýn á eigin framtíð. Einungis 33% telja að árið 2013 eigi þó eftir að vera ár efnahagslegrar velsældar og 23% segja að árið verði ár friðar í heiminum.

Í tilkynningu Gallup um könnunina segir að persónuleg bjartsýni Bandaríkjamanna sé tengd því hvar þeir staðsetji sig í pólitík. Demókratar og frjálslyndir eru þeir sem eru hvað bjartsýnastir á meðan repúblikanar og íhaldsmenn eru minna bjartsýnir.

Samkvæmt rannsóknum Gallup þá hafa demókratar einmitt verið mest jákvæðir gagnvart efnahagslífinu og eru líklegastir til að segja að bestu ár Bandaríkjanna séu þau sem séu framundan fremur en þau sem liggja að baki. Þá er yngra fólk einnig líklegra til að vera bjartsýnt á gang mála en eldra fólk.