Seðlabanki Bandaríkjanna hefur lækkað hagvaxtarspá sína fyrir þetta ár. Ástæðan er mikið vetrarveður sem geysaði víða í Bandaríkjunum. Nú er búist við því að hagvöxtur verði á bilinu 2,1-2,3% en í mars var búist við að hagvöxturinn yrði á bilinu 2,8-3%.

Þá hefur bankinn dregið úr aðgerðum til að örva hagvöxt, en við því hafði verið búist. Á vef BBC segir að bankinn hafi að undanförnu keypt skuldabréf til þess að halda langtímavöxtum lágum og hvetja banka til að lána. En hægt og sígandi hefur bankinn dregið úr þessum kaupum og búist er við því að þeim verði alveg hætt í haust.

Janet Yellen seðlabankastjóri segir þó að það sé ekki fyrirframákveðið að hætta þessum kaupum og hugsanlega muni bankinn taka breytta stefnu ef á þarf að halda.

Hún segir að stýrivextir verði nærri núllinu eftir að hætt verður að kaupa skuldabréf.