Bandarísk stjórnvöld eru sögð ætla að heimila bandaríska olíufélaginu Chevron að hefja á ný olíuvinnslu í Venesúela. Wall Street Journal greinir frá þessu.

Ef Chevron fær leyfið þá þýðir algjöra stefnubreytingu Bandaríkjanna gagnvart Venesúela, en bandarísk stjórnvöld lögðu viðskiptabann á ríkið árið 2006.

Ef af verður þá mun Chevron fá stjórn á hluta af olíuframleiðslunni og viðhaldi á olíusvæðunum sem eru í niðurníðslu vegna viðhaldsskorts.

Framleiðslan verður í sameiginlegu fyrirtæki með Petróleos de Venezuela SA en ríkisolíufélagið getur ekki ráðist í nýjar fjárfestingar næstu árin, ekki fyrr en skuldahlutfall þess hefur lækkað.

Fleira hangir á spýtunni

Nýja olíuleyfi Chevron tengist viðræðum bandarískra og venesúlenska stjórnvalda. Búist er við sameiginlegri tilkynningu stjórnvalda og stjórnarandstöðu í Venesúela um viðræður um frjálsar kosningar í landinu. Til viðbótar því muni bandarísk stjórnvöld losa um 3 milljarða Bandaríkjadala, sem eru í eigu Venesúela og þau frystu, sem verða notaðir til góðgerðamála í landinu.

Ástandið hefur aldrei verið alvarlegra í Venesúela, hungursneið er í landinu og milljónir manna hafa flúið yfir til nágrannalandanna, til dæmis Kolumbíu, og síðan áfram til Bandaríkjanna og Evrópu.