Maímánuður var fyrsti mánuðurinn frá því í september í fyrra þar sem erlendir ferðamenn voru fleiri en tíu þúsund. Þetta kemur fram í greiningu frá Íslandsbanka .

Samsetning ferðamanna til landsins hefur verið að breytast en bandarískir ferðamenn telja rúmlega helminginn af öllum brottförum frá Keflavíkurflugvelli. Þetta er í takt við nýlega umfjöllun Viðskiptablaðsins um að Bandaríkjamenn hafi átt 67,2% erlendrar greiðslukortaveltu í mánuðinum .

Bandaríkjamenn verða líklega áfram fjölmennastir þjóða um ferðir hingað til lands í kjölfar tilslakana þar í landi fyir bólusett fólk.  Hins vegar stefnir allt í bakslag í ferðavilja breskra ferðamanna eftir að smitum í Bretlandi fór að fjölga á nýjan leik.

Þrátt fyrir að fjöldi brottfara hafi aðeins numið um 11% af fjöldanum sem var í maí 2019 er kortaveltan um 30% af því sem var í þeim mánuði. Þetta gefur ágætis vísbendingu um að ferðamenn sem koma hingað til lands eru að jafnaði neysluglaðari en áður.

Íslandsbanki telur þó að ferðamönnum fari að fjölga verulega þegar líða fer á seinni helming ársins og að þeir verði um 700 þúsund á árinu. Spá Isavia er öllu varfærnari og gerir ráð fyrir að um 400 þúsund ferðamenn komi til landsins árinu og að um tvær milljónir ferðamanna muni fara um flugvöllinn á árinu en það er um fjórðungur af þeim sem fóru um völlinn árið 2019. Sú spá gæti þó fljótt breyst ef að flugfélögin ákveða að bæta við sig ferðum til landsins sem að telst ekki ósennilegt.