Hinn svokallaði svarti föstudagur (e. black friday) var á föstudaginn þar sem venja er að bandarískar verslanir opna eftir þakkagjörðarhátíðina og bjóða alls konar varning á afslætti. Að vanda fylltust búðirnar af fólki sem var þyrst í alls kyns vörur á útsölu. Sumar verslanir opnuðu reyndar á fimmtudagskvöld en hér að neðan má sjá myndband frá verslun Wal Mart í Fort Worth í Texas þar sem mikil keppni myndaðist um bestu bitana.

Á þessum tíma árs berast yfirleitt fregnir af því að ýmis slys hafi orðið á fólki í atganginum og er þetta ár ekki frábrugðið. Meðal annars var maður skotinn í fótinn í Las Vegas eftir að hann reyndi að ná sjónvarpi aftur af þjófi sem hafði tekið það af honum og þá voru tveir handteknir eftir að maður hafði verið stunginn vegna deilna um bílastæði við verslun Walmart í Virginíu. Á vef BBC má kynna sér fleiri dæmi um handtökur og ofbeldi í tengslum við útsölurnar.