Almenningur og fyrirtæki í Bandaríkjunum virðast ekki hafa látið áhyggjur af hjöðnun bandaríska efnahagskerfisins trufla sig við að gefa til góðgerðamála en samkvæmt fréttavef BBC náði stuðningur til góðgerðamála hámarki á síðasta ári þegar Bandaríkjamenn gáfum 306 milljarða Bandaríkjadali

Háskólinn í Indiana tekur árlega saman skýrslu fyrir Giving USA Foundation samtökin en þar kemur fram að aukning á gjöfum til góðgerðamála eykst um 1% milli ára. Þetta er í fyrsta skipti sem upphæðin fer yfir 300 milljarða frá því að skólinn hóf að taka skýrsluna saman fyrir rúmlega 20 árum.

Í skýrslunni kemur þó einnig fram að búast megi við minni stuðningi á þessu ári vegna samdráttar í efnahagslífinu.

Einstaklingar telja fyrir stóran hluta upphæðarinnar en það eru trúarsöfnuðir sem þiggja mestu upphæðirnar eða um 102 milljarða dali, sem er 1/3 af öllu því sem gefið er til góðgerðamála.

Þá voru um 43,3 milljarðar dala gefnir til menntastofnana.

Einstaklingar gáfu um 230 milljarða dali, fyrirtæki um 16 milljarða og sjálfseignastofnanir og samtök um 43 milljarða dali.