Mikill viðbúnaður var við sendiráð Bandaríkjanna í Osló fyrr í dag vegna tilkynningar um sprengju við sendiráðið en svo virðist sem það hafi verið Bandaríkjamenn sjálfir sem hafi komið umræddri sprengju fyrir. Eða öllu heldur, það gleymdist að fjarlægja æfingasprengju sem notuð var af Bandaríkjamönnum. Þetta kemur fram á vef VG í Noregi.

Grunsamlegur hlutur fannst undir bifreið við Sendiráðið fyrr í dag en hluturinn reyndist svo vera frá Bandaríkjamönnum sjálfum kominn. Það var öryggisvörður sendiráðsins sem tilkynnti lögreglunni um hlutinn. Svæði í 500 metra radíus í kringum sendiráðið var rýmt eftir að tilkynnt var um hlutinn.