Samkvæmt síðustu fylgiskönnunum verður sannarlega mjótt á munum í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í dag. Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur að jafnaði mælst með eins prósentustigs forskot á Mitt Romney, forsetaefni Rebúblikana, í síðustu fylgiskönnunum fyrir kosningarnar. Slíkur munur telst ekki marktækur. Kannanir hafa hins vegar sýnt forskot forsetans í nokkrum af lykilfylkjunum.

Í gær fóru fram síðustu fundir frambjóðendanna tveggja í þeim fylkjum sem mestu máli skipta um úrslit kosninganna. Ef marka má frásögn fjölmiðla af fundunum gætti þreytu hjá báðum frambjóðendum sem rámir reyndu að tryggja sér þau atkvæði sem þarf til sigurs. Mitt Romney hélt fundi í Flórída, þar sem hann hefur naumt forskot samkvæmt könnunum. Í kjölfarið fór hann til Virginíu, New Hampshire og Ohio. Obama varði deginum hins vegar í Iowa, Wisconsin og Ohio og hafði, mörgum til gamans, með sér þá Bruce Springsteen og Jay-Z, söngvara.

Fjölmiðlar vestanhafs fjalla um kosningarnar í dag og segja margir skemmdir og önnur áhrif af fellibylnum Sandý áhyggjuefni. Sandý hefur skapað töluverð vandræði við framkvæmd kosninganna í New York og New Jersey. Sérfræðingar óttast að taplið forsetabaráttunnar muni leggjast í lagadeilur um réttmæti kosninga, verði nokkur vandræði við framkvæmdin, og er þar sérstaklega horft til Ohio og Flórída, sem líklegust eru til að verða þau fylki Bandaríkjanna sem ráða úrslitum í kosningunum.