Til stendur að breyta þeim reglum sem bandarísku húsnæðislánasjóðirnir Fannie Mae og Freddie Mac starfa eftir til að auðvelda lántakendum að greiða af lánum sínum. Með þessu er reynt að forðast aðfarargerðir í íbúðum Bandaríkjamanna.

Samkvæmt heimildum Reuters munu lánastofnanir létta á greiðslubyrði lántakenda til að gera þeim kleift að standa í skilum. Greiðslur sem ekki eru hærri en 38% af tekjum lántakanda verða þó ekki lækkaðar.

Reglubreytingarnar eru sambærilegar og breytingar sem bandaríski tryggingasjóður innistæðueigenda (FDIC) stóð fyrir að gera á reglum um almenn bankalán fyrr á þessu ári.