Bandarísk stjórnvöld hafa bannað skortsölu fjármálafyrirtækja fram til 2. október, en bresk stjórnvöld riðu á vaðið í þessum efnum í gær með fjögurra mánaða banni á skortsölu á bréfum fjármálafyrirtækja.

Aðgerðunum er ætlað að koma ró á fjármálamarkaði en víða um Evrópu hafa stjórnvöld einnig hert reglur um skortsölu, að því er kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Einnig hafa Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og seðlabankastjórinn Ben Bernanke lagt til að eignir sem tengdar eru fasteignalánum verði færðar af efnahagsreikningi bandarískra fjármálastofnana og inn í nýja stofnun.

„Eftir yfirtöku á Fannie og Freddie sem gæti kostað allt að 200 mö.USD hafa vaknað áhyggjur af efnahag ríkisins í ljósi þess að ríkið ætli nú að taka að sér enn fleiri virðislitlar eignir. Síðustu tvo daga hefur ríkið tilkynnt um útgáfu 200 ma.USD víxla sem ætlað er að styrkja efnahag seðlabankans. Seðlabankinn samþykkti einnig nýlega 85 ma.USD brúarlán til AIG og ætlar sér að kaupa 5 ma.USD virði af eignum tengdum undirmálslánum í þessum mánuði undir neyðaráætlun.,“ segir í Vegvísi Landsbankans.