Yfir tíu milljónir Bandaríkjamanna eiga ekki bankareikninga. Margir þeirra vilja eiga bankareikning en þeim er meinað frá því vegna slæmrar skuldasögu. Zikomo Fields er einn þeirra en hann þarf að lifa á debetkorti með miklum greiðslutakmörkunum.

Zikomo Fields er hugbúnaðarverkfræðingur sem er með yfir 11,4 milljónir króna í laun á ári. En hann á ekki bankareikning. Ástæða þess er ekki sú að hann vilji ekki eiga bankareikning, heldur er það að enginn banki vill hann sem viðskiptavin. Fields er dæmigerður kúnni sem bankar eiga að vilja, hann er með há laun sem mætti nýta til bíla eða húsnæðiskaupa eða fjárfestingar. Hann getur ekki fengið bankareikning vegna þess að nafnið hans birtist í kerfi sem stuðst er við til að velja nýja viðskiptavini ChexSystems.

Þúsundir banka athuga bakgrunn framtíðarkúnna með því að skoða upplýsingar um þá í kerfinu ChexSystems þar sem kemur fram hvort viðskiptavinurinn hefur tekið yfirdrátt oft, ekki staðið undir afborgunum og svo framvegis. Tilgangurinn með kerfinu er að koma í veg fyrir að bankinn öðlist viðskiptavin sem er svindlari, hins vegar er þetta kerfi að koma í veg fyrir að margir sem hefur einhvern tímann átt í fjárhagsvandræðum eignist bankareikning á ný.

Tekur sjö ár að fá bankareikning aftur

Fyrir fjórum árum var Fields að vinna sem verktaki og var stundum atvinnulaus á milli verkefna. Hann segir í viðtali við The Washington Post að atvinnuleysið hafa leitt til þess að hann tók yfirdrátt á U.S. Bank bankareikningi sínum. Fields segir að hann hafi ekki átt annarra kosta völ þangað til hann fékk fullt starf aftur. Í lok tímabilsins stóð hann í 1200 dollara skuld sem hann gat ekki borgað tilbaka og U.S. Bank lokaði reikningnum hans.

Eftir fimm mánaða atvinnuleysi fékk Fields vinnu á ný og gerði upp skuldir sínar við U.S. Bank. Það dugði hins vegar ekki til að laga álit bankans á honum. Það tekur sjö ár fyrir neikvæðar upplýsingar um kúnna til að verða fjarlægðar úr kerfi ChexSystems. Þangað til þarf Fields að styðjast við debetkort frá Wal-Mart og American Express sem er með miklar takmarkanir.