Í mars fjölgaði gistináttum á hótelum hér á landi um 17% frá marsmánuði í fyrra að því er Hagstofan greinir frá. Var heildarfjöldi þeirra 352.600 en þar af voru erlendir gestir með 88% af gistinóttunum. Fjölgaði erlendu gestunum einnig um 17% meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 15%.

Minni aukning á höfuðborgarsvæðinu

Aukning gistinátta á höfuðborgarsvæðinu var 12% en þar eru langflestar þeirra eð 233 þúsund. Næst flestar þeirra eru á Suðurlandi, eða um 66.300.

Bandaríkjamenn voru stórtækastir með 93.700 gistinætur, Bretar voru þar næstir á eftir með 90.600 gistinætur og Þjóðverjar með 24.300, meðan Íslendingar nýttu sér 42 þúsund gistinætur. Heildarfjöldi gistinátta síðustu 12 mánuði nam 4.060.000, sem er 32% aukning miðað við sama tímabil árið áður.