Nýjar reglur bandaríska seðlabankans eru farnar að hafa þau áhrif að erlendir bankar eru að draga úr umsvifum starfsemi sinnar þar í landi. Reglurnar kveða á um stífari álagspróf og hærri eiginfjárkröfur á erlend verðbréfamiðlunarfyrirtæki sem eru með eignir yfir 50 milljörðum dala.

Í frétt Financial Times er tekið dæmi af skrifstofu Royal Bank of Scotland í Connecticut. Fyrir bankahrunið 2008 byggðu UBS og RBS tvær af stærstu miðlunarskrifstofum heims í ríkinu og voru byggingarnar hvor á móti annarri. Á sínum tíma sagði UBS í tilkynningu að í bílastæðakjallaranum kæmust fyrir 500 bílar og var það til marks um umfang starfseminnar. Byggingarnar virðast nú vera eins og minnismerki um horfna tíma. Starfsemin er ekki nema svipur hjá sjón og skrifstofurnar eru nú mun hljóðlátari en þær voru.

RBS lýsti því yfir í síðustu viku að um 300 manns yrði sagt upp í skuldabréfamiðluninni og UBS hefur meira að segja flutt starfsfólk bakskrifstofunnar á aðalgólf skrifstofunnar til að fela starfsmannafækkunina. Gegnir þetta fólk því svipuðu hlutverki og sætafyllarnir á Óskarsverðlaunahátíðinni. Ríkisstjórn Connecticut hefur áhyggjur af því að fjármálafyrirtækin muni hreinlega yfirgefa ríkið og hefur því boðið ýmsan afslátt af opinberum gjöldum. Afstaða alríkisins er hins vegar allt önnur. Þar eru menn að vinna að því að gera Bandaríkin minna aðlaðandi fyrir erlenda banka og eru nýju álagsprófin og eiginfjárkröfurnar hluti af því. Markmiðið er að koma í veg fyrir að bandaríska ríkið þurfi að koma erlendum bönkum til bjargar í gegnum bandarísk dótturfélög, eins og gerðist eftir bankahrunið 2008.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .