*

laugardagur, 11. júlí 2020
Innlent 10. janúar 2020 18:19

Bandaríkjamönnum fækkaði um þriðjung

Um 330 þúsund færri ferðamenn á síðasta ári en 2018, eða ríflega 14% fækkun. Kínverjum fjölgaði um 11%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega tvær milljónir árið 2019 eða um 329 þúsund færri en árið 2018, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia.

Fækkun milli ára nemur 14,2%. Er þetta í fyrsta sinn á níu ára tímabili sem fækkunar gætir í komum erlendra farþega til landsins.
Af einstaka þjóðum voru brottfarir Bandaríkjamana flestar eða um 464 þúsund talsins og var mest fækkun þaðan eða um 230 þúsund.

Brottförum erlendra farþega milli ára 2018 til 2019 fækkaði alla mánuði ársins og var fækkunin hlutfallslega mest í maí og september eða meiri en 20%.

Brottfarir erlendra farþega frá landinu mældust tæplega tvær milljónir á nýliðnu ári eða 14,2% færri en árið 2018. Þó svo um sé að ræða töluvert færri farþega en árin 2017 og 2018 er um að ræða þriðja fjölmennasta ferðamannaárið frá upphafi talninga.
Á tímabilinu 2014 til 2019 var aukningin milli ára að jafnaði 17,1%, mest frá 2015 til 2016 eða 40,1%.

Bandaríkjamenn nærri hálf milljón

Af einstaka þjóðernum voru flestar brottfarir árið 2019 tilkomnar vegna Bandaríkjamanna eða um 464 þúsund talsins. Um er að ræða þriðjungi færri brottfarir Bandaríkjamanna en árið 2018. Brottfarir Breta komu þar á eftir en þær mældust tæplega 262 þúsund árið 2018 og fækkaði um 12% milli ára. Samtals voru brottfarir Bandaríkjamanna og Breta 36,6% af heild.

Brottfarir Þjóðverja á árinu 2019 voru í þriðja sæti, um 132 þúsund talsins (6,7% af heild) og fækkaði þeim um 5,0% milli ára. Brottfarir Kínverja voru í fjórða sæti, um 99 þúsund talsins (5,0% af heild) og fjölgaði þeim jafnframt eða um 10,9% milli ára, sem og brottförum Frakka sem voru állíka margir og árið áður en þeir voru um 97 þúsund talsins árið 2019 (4,9% af heild).

Þar á eftir fylgdu síðan brottfarir Pólverja (4,7% af heild), Kanadamanna (3,5% af heild), Spánverja (3,0% af heild), Dana (2,5% af heild) og Ítala (2,4% af heild).

8,6% fækkun í desember

Fækkun var í brottförum erlendra farþega milli ára 2018 til 2019 alla mánuði ársins eins og sjá má af töflunni hér að ofan.

Brottförum fækkaði um meira en 20% tvo mánuði ársins 2019 eða í maí og september. Sex mánuði ársins fækkaði þeim á bilinu 10-20% eða í apríl, júní, júlí, ágúst, október og nóvember. Fjóra mánuði ársins var fækkunin milli ára 2018 til 2019 innan við 10%, eða í janúar, febrúar, mars og desember.

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll  í desembermánuði voru 125 þúsundeða um 11.800 þúsund færri en í október árið 2018. Fækkun milli ára nemur 8,6%. Mest munar um Bandaríkjamenn en þeim fækkaði um 9 þúsund alls. Þar á eftir komu Bretar en þeim fækkaði um 10% eða um 3 þúsund manns.