Áköll til Bandaríkjastjórnar um að hún komi bílaiðnaðinum þar í landi jukust um allan helming um helgina, en bæði repúblikanar og demókratar segja að ríkisvaldinu og skattgreiðendum sé ófært að koma tilteknum atvinnugreinum til hjálpar hvað eftir annað.

Mel Martinez, sem er öldungadeildarþingmaður fyrir Repúblikanaflokkinn í Flórída, styður tillögur um að ríkisstjórn George W. Bush noti fjármuni af 700 miljarða dala björgunaráætlun ríkisins til þess að koma til hjálpar bílarisunum þremur, General Motors, Ford og Chrysler.

„Ég tel að fjármálaráðherra geti veitt þessum fyrirtækjum lán innan lagaheimildar björgunarpakkans," sagði Martinez, sem á sæti í bankanefnd öldungadeildarinnar, sem hefur tilsjón með björgunaráætluninni.

Bush-stjórnin aftók fyrir skömmu að koma General Motors til hjálpar í því skyni að greiða fyrir hugsanlegum samruna við Chrysler og embættismenn hennar hafa ekkert viljað segja um hvort þeir vilji eða megi nota fjármuni úr björgunaráætluninni til þess að aðstoða bílaiðnaðinn.

Upphaflegt markmið hennar var að koma bönkum og fjármálafyrirtækjum til bjargar.

Bílarisarnir brenna reiðufé ört þessa dagana og vilja fá 25 milljarða dala að láni þegar í stað til þess að forða þeim frá gjaldþroti. Þeir kenna um lánsfjárkreppunni, sem komi afar illa við bílasölu en hún er afar háð bílalánum þar sem hér.

Bílarisarnir þrír hafa um 250.000 manns í vinnu í Bandaríkjunum og afleidd störf eru talin vera allt að fjórar milljónir.