Tafir hafa orðið á ráðningu fjármálafyrirtækja  til að hafa umsjón með kaupum bandaríska ríkisins á verðlitlum eignum fjármálafyrirtækja.

Kaupin eru hluti af 700 milljarða dala björgunarpakka stjórnvalda vestanhafs.

Wall Street Journal segir ýmsa þröskuldi hafa komið upp í vegi björgunaraðgerðanna, þ. á m. skiptar skoðanir um þóknun þeirra sem stýra björgunarsjóðnum og skort á mannafla í fjármálaráðuneytinu.

Tafirnar hafa aukið á óvissu á markaði. Þó er búist við að fjármálaráðuneytið ráði fyrirtæki til verksins bráðlega, mögulega strax í þessari viku.

Fjármálaráðuneytið vill ganga fyllilega úr skugga um að ekki verði hagsmunaárekstrar milli fyrirtækja og þeirra sem ráðnir eru til að hafa umsjón með kaupum skulda og eigna fjármálafyrirtækja.