Það sem af er ári hafa bandarísk hlutabréf hækkað áberandi meira en annars staðar á Vesturlöndum, og þótt víðar sé leitað. S&P500 hlutabréfavísitalan – sem inniheldur 500 stór skráð félög víðs vegar um Bandaríkin – hefur hækkað um 23% það sem af er ári, samanborið við 16% hækkun sambærilegrar vísitölu í Evrópu, 12% í Kína og 10% á nýmörkuðum.

Þá hefur MSCI heimsvísitalan að Bandaríkjunum undanskildum hækkað um 13%, á meðan bandaríski hluti hennar hefur hækkað jafn mikið og S&P500, um 22%.

Allir 11 undirflokkar S&P500 hafa hækkað á árinu, en mest þó upplýsingatækniflokkurinn, um heil 37%. Af einstökum fyrirtækjum ber helst að nefna tæknirisann Apple, smávöruverslunarkeðjuna Target og veitingastaðakeðjuna Chipotle Mexican Grill, sem öll hafa hækkað um eða yfir 60%.

Í takt við hækkun bandarískra hlutabréfa umfram önnur eru þau nú dýrari miðað við hagnað. Wall Street Journal tekur saman svokallað V/H-hlutfall (verð deilt með hagnaði) á helstu mörkuðum heims, en S&P500 ber þar af með rétt um 20, á meðan hlutfallið er um 17 hjá Japan, Mexíkó, Frakklandi og Evrópu í heild, og aðeins tæplega 13 á kóreskum mörkuðum.

Góð uppgjör og hagtölur
Greinendur telja hækkun bandarískra hlutabréfa nýverið að einhverju leyti mega rekja til aukinnar jákvæðni fjárfesta gagnvart tollaviðræðum Bandaríkjanna og Kína. Fyrir mánuði síðan sömdu bandarísk og kínversk yfirvöld um vopnahlé í tollastríðinu sem farið hefur stigvaxandi síðustu tæpu tvö ár.

Fleira kemur þó til en vonir og væntingar um betri tíma í samskiptum stórveldanna tveggja. Uppgjör bandarískra fyrirtækja fyrir þriðja ársfjórðung, sem birt voru á dögunum, komu almennt betur út en spáð hafði verið, og helstu hagvísar þar í landi hafa að sama skapi verið jákvæðir. Sterk einkaneysla og jákvæðari þróun á vinnumarkaði en á hafði horfst virðast hafa sefað áhyggjur af yfirvofandi niðursveiflu í bili.

Hlutabréf stungið hagvöxt af
Þótt bjartsýni virðist almennt ríkja á bandarískum hlutabréfamörkuðum þessa dagana heyrast einnig áhyggjuraddir. Einn greinandi segir að verðþróun hlutabréfa í víðu samhengi ætti til lengri tíma að vera svipuð og hagvöxtur, og vísar til orða Warrens Buffet þar að lútandi.

Bandarísk fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum hafi hins vegar aldrei verið hlutfallslega jafn dýr miðað við landsframleiðslu. Staðan sé svo jafnvel enn verri fyrir stór bandarísk fyrirtæki sem horfi á frekari vöxt utan landsteinanna, hvar hagvaxtarhorfur eru víða mun verri en þær bandarísku.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .