Bandarísk flugfélög hafa á undanförnum vikum og áætla enn að draga saman seglin í stað þess að hækka verð á flugmiðum.

Um þetta er fjallað á fréttavef Reuters en hátt eldsneytisverð og minnkandi ferðatíðni hafa haft þónokkur áhrif á stöðu flugfélaga vestanhafs undanfarið.

Þannig hafa stór flugfélög á borð við Delta Air Lines og lággjaldaflugfélagið Southwest Airlines dregið verulega úr framboði sínu með haustinu. Viðmælandi Reuters sem sérhæfir sig í greiningum á flugfélögum segist gera ráð fyrir því að ef olíuverð heldur áfram að hækka muni félögin enn draga úr framboði og finna leiðir til að draga úr þjónustu.

Þá hefur United Continental Holdings, móðufélag United Airlines og Continental Airlines (félögin hafa verið sameinuð en bíða samþykkis bandarískra samkeppnisyfirvalda) dregið úr framboði sínu á millilandaflugi og einbeitir sér aðeins að vinsælli áfangastöðum.

Þá hefur Reuters eftir öðrum viðmælenda sínum að stærri félög á borð við United Continental og Delta muni að öllum líkindum gefa út yfirlýsingu í haust þar sem engin framboðsaukning á flugi verði á næsta ári, jafnvel að áfangastöðum verði fækkað.