Bandaríska flugfélagið US Airways Group tilkynnti í upphafi vikunnar að félagið hygðist fjölga áhafnarmeðlimum félagsins og ráða um 80 flugmenn og 420 flugfreyjur fyrir næsta sumar.

Bæði verða nýjar stöður auglýstar auk þess sem áhafnarmeðlimir, sem áður var sagt upp störfum, verða endurráðnir.

Áður höfðu mörg af stærri flugfélögunum vestanhafs tilkynnt um auknar ráðningar. Þannig hyggst Delta Air Lines ráða um 1.000 flugfreyjur fyrir næsta sumar auk þess sem AMR, móðurfélag American Airlines, mun ráða um 700 flugfreyjur og 100 flugmenn. Í flestum tilvikum er um endurráðningar að ræða.