Samgönguráðuneyti Bandaríkjanna samþykkti 13. janúar síðastliðinn umsókn Icelandair um að fá að fljúga 170 ferðum, báðar leiðir, á milli Havana í Kúbu og Miami, Orlando og Houston í Bandaríkjunum. Viðskiptablaðið greindi frá áformum flugfélagsins, en um er að ræða leiguflug fyrir Anmart Air.

Bandarísku flugfélögin Swift Air, World Atlantic Airlines og Global Crossing Airlines (GCA) mótmæltu harðlega innreið Icelandair á markaðinn. Lögmaður á vegum GCA sendi yfirlýsingu til samgönguráðuneytisins þar sem hann hélt því fram að tilgangur Icelandair með inngöngu á markaðinn væri að koma efnahagslegu höggi á bandarísku flugfélögin.

Icelandair vísaði þessu á bug og sagði að flugfélagið væri ekki að taka pláss frá bandarískum flugfélögum, og fékk samþykki ráðuneytisins fyrir ferðunum, að því er kemur fram í grein Business Insider.

Icelandair gera ráð fyrir því að fara í 170 ferðir á milli Kúbu og Bandaríkjanna á tímabilinu 1. febrúar til 31. maí.