Sífellt fleiri bandarísk fyrirtæki festa kaup á erlendum fyrirtækum til að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi. Þetta gera þau til að forðast háan skatt á fyrirtæki sem ríkir í Bandaríkjunum. Á meðal þeirra fyrirtækja sem hafa flutt höfuðstöðvar sínar á árinu er bananaframleiðandinn Chiquita sem hefur sameinast írska fyrirtækinu Fyffes. Þar að auki hafa nokkur fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum flutt höfuðstöðvar sínar á árinu. Má þar nefna Medtronic sem keypti írska fyrirtækið Covidien og flutti höfuðstöðvar sínar til Írlands og bandaríska lyfjafyrirtækið AbbVie sem keypti breska lyfjafyrirtækið Shire og flutti höfuðstöðvar sínar til Bretlands.

Heildarskattur á fyrirtæki er allt að 39,1% í Bandaríkjunum og er sá hæsti meðal OECD-ríkja. Til samanburðar er sama skattprósenta nærri helmingi lægri á Íslandi, eða 20%, og því ein sú lægsta meðal OECD-ríkja. Lægstur er fyrirtækjaskattur á Írlandi á meðal OECD-ríkja þar sem hann nemur 12,5%. Í síðasta mánuði tilkynnti bandaríski skyndibitarisinn BurgerKing að hann muni festa kaup á kanadísku kaffi- og kleinuhringjakeðjunni Tim Hortons fyrir 11 milljarða dollara, eða sem nemur tæpum 1.300 milljörðum íslenskra króna. Eftir samrunann munu höfuðstöðvar Burger King flytja til Kanada þar sem fyrirtækjaskattur er 26,3%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .