Hlutabréfamarkaðurinn í Bandaríkjunum dansaði í kringum núllið í dag. Góð tíðindi af hrávörumarkaði unnu gegn slæmum fréttum af litlum væntingum neytenda auk metverðfalls á húsnæði. Bloomberg greinir frá þessu.

Standard & Poor's 500-vísitalan hækkaði þriðja viðskiptadaginn í röð og bætti við sig 0,2%. Dow Jones lækkaði hins vegar lítillega, eða um 0,1%. Nasdaq hækkaði síðan um 0,6%. Fram kemur í frétt Bloomberg að fyrir hver tvö hlutabréf sem hækkuðu í viðskiptum dagins lækkaði eitt.

Standard & Poor's 500 hefur nú bætt við sig 6,3% frá því að vísitalan náði 19 mánaða lágmarki sínu þann 10. mars síðastliðinn.

Olíutunnan fór aftur upp fyrir 100 dollara-múrinn í dag. Við lokun markaða kostaði tunnan 100,6 dollara og hafði hækkað um 0,74%.