Bandarísku körfuknattleiksliðin LA Clippers, Washington Wizards, Toronto Raptors, Milwaukee Bucks og Philadelphia 76ers hafa fengið skráð vörumerki sín hér á landi hjá Einkaleyfastofu. Þetta kemur fram í nýju fréttabréfi stofnunarinnar .

Þar sést að sótt hefur verið um skráninguna á vormánuðum. Ólafur Ragnarsson hæstaréttarlögmaður er skráður umboðsmaður félaganna sem öll spila í NBA-deildinni í Bandaríkjunum. Það má þó telja líklegt að félögin hafi lagt inn umsóknir á fleiri stöðum til verndunar á vörumerkjarétti sínum.

Skráning vörumerkja felur í sér vernd á auðkenni vöru og þjónustu, en samkvæmt Einkaleyfastofu gegna þau því hlutverki að gera neytendum kleift að greina vörur og þjónustu eins aðila frá vörum og þjónustu annarra. Einnig gegni þau mikilvægu hlutverki við markaðssetningu, hafi ríkt auglýsingagildi og verði því að bera viss sérkenni eða séreiginleika sem gera þeim kleift að gegna því hlutverki.