Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa samþykkt að bjarga Citigroup með því að taka á sig ábyrgð á mögulegu rúmlega 300 milljarða dala tapi af slæmum eignum bankans og setja inn í hann nýtt fjármagn. Í staðinn fyrir ábyrgðina fær ríkið rétt til að kaupa bréf í bankanum, segir í WSJ.

Citigroup er einn stærsti banki heims með yfir 200 milljón viðskiptavini í yfir 100 löndum. Í WSJ segir að takist björgunaraðgerð stjórnvalda geti það fært fjármálakerfinu í heild sinni stöðugleika. Mistakist aðgerðin geti það aukið enn á efasemdir um framtíð fjármálageirans.

Ákvörðunin um björgun Citigroup kom í kjölfar mikilla fundahalda um helgina á milli stjórnenda bankans og háttsettra embættismanna. Citigroup mun taka á sig tapið af fyrstu 29 milljörðunum af 306 milljarða dala slæmu eignasafni, segir í WSJ.