Bandarísk fyrirtæki hafa í auknum mæli undanfarið flutt höfuðstöðvar sínar úr landi til þess að greiða lægri fyrirtækjaskatt. Hafa flutningarnir verið framkvæmdir með þeim hætti að þau kaupa smærri fyrirtæki utan landsteinana og flytja svo höfuðstöðvarnar þangað.

Nýlegt dæmi um slíka flutninga átti sér stað þegar Burger King keypti fyrirtækið Tim Hortons í Kanada þar sem fyrirtækjaskatturinn er 26,5% en það er töluvert lægra en skatturinn í Bandaríkjunum, sem er 35%.

Bandarísk stjórnvöld hafa nú sett reglur til þess að koma í veg fyrir flutninga sem þessa, að því er fram kemur á BBC News .Fela reglurnar meðal annars í sér að fyrirtæki sem framkvæmir slíka flutninga verði gert erfiðara að sækja fjármagn utan Bandaríkjanna.

Einnig hefur það verið sett sem skilyrði að bandarískir eigendur nýs sameinaðs fyrirtækis megi ekki þéna meira en 80% af tekjum þess til þess að flutningarnir teljist gildir. Reyna bandarísk stjórnvöld þannig að þvinga bandarísk fyrirtæki til þess að halda kyrru fyrir í Bandaríkjunum með því að gera flutningana óhagkvæma.