Bandaríska ríkisstjórnin ákvað í nú í kvöld að lána bandaríska tryggingarisanum American International Group (AIG) allt að 85 milljarða Bandaríkjadala en félagið riðar nú á barmi gjaldþrots.

Bloomberg fréttaveitan greinir frá því að ríkisstjórn Bandaríkjanna mun í leiðinni taka yfir tæp 80% af hlutafé AIG.

Samningurinn, sem kemur af frumkvæði bandaríska fjármálaráðuneytisins að sögn Bloomberg, mun gera það að verkum að starfssemi AIG mun halda áfram.

Lánið er veitt til tveggja ára og mun gera það að verkum að AIG getur næstu misseri leitast eftir því að selja eignir sínar á „eðlilegan máta en ekki á brunaútsölu,“ eins og það er orðað í frétt Bloomberg.

Skilmálar lánsins eru þó þeir að AIG greiði það til baka jafnt og þétt með sölu eigna. Þá munu yfirvöld einnig geta komið í veg fyrir að greiddur verði út arður til annarra hluthafa félagsins.

Þá mun í leiðinni verða skipt um yfirstjórn AIG og hefur forstjórinn, Robert Willumstad þegar verið látinn taka poka sinn. Óstaðfestar heimildir Bloomberg herma að Edward Liddy, fyrrverandi forstjóri Allstate muni taka við sem forstjóri.

Samkvæmt tilkynningu bandaríski Seðlabankans í kvöld telur bankinn að hefði AIG orðið gjaldþrota hefði það haft talsverð áhrif á fjármálamarkaði sem þegar eru „mjög brothættir“ eins og það er orðað í yfirlýsingu bankans.

Þá telur Seðlabankinn jafnframt að gjaldþrot AIG hefði leitt af sér hærri fjármagnskostnað, áhrif til frekari lækkunar húsnæðisverðs og í heildina litið veikara hagkerfi.

Markaðsverðmæti AIG hefur lækkað um 79% frá því á fimmtudag.