Bandarísk yfirvöld ætla sér að kaupa svokölluð eitruð veð af bönkum og fjármálafyrirtækjum fyrir allt að 500 milljarða Bandaríkjadali auk þess sem yfirvöld ætla sér að setja allt að 1000 milljarða dala í umferð og auka þannig fjármagnsflæði í landinu.

Þetta kom fram í máli Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna sem í dag kynnti nýtt björgunarplan fjármálaráðuneytisins til handa fjármálafyrirtækjum sem hann kýs að kalla Financial Stability Plan.

Bandaríska ríkið mun koma á fót eignarumsýslufélagi sem mun yfirtaka hin eitruðu veð og hreinsa þau þannig út úr bankakerfinu. Með þessum hætti er vonast til þess að stöðugleiki myndist á fjármálamarkaði.

„Þeir eru í raun að frelsa bankanna með því að varpa byrðinni yfir á skattgreiðendur,“ segir viðmælandi Bloomberg fréttaveitunnar sem er ekki par ánægður með áætlun yfirvalda.

Þá greinir Bloomberg einnig frá því að áætlunin sé óljós og enn liggi ekki fyrir hvaða veð þykja nógu „slæm“ til að vera tekinn inn í sjóðinn auk þess sem erfitt er að meta verð þeirra með réttum hætti.

Þá munu yfirvöld jafnframt koma á 50 milljarða dala björgunarsjóð handa heimilum sem, að sögn Geithner, verður eingöngu notaður til að aðstoða einstaklinga sem lent hafa í vandræðum með fasteignalán sín til að standa í skilum á þeim.