„Núna höfum við fengið lykil sem gerir læknum kleift að kaupa vöruna okkar og fá hana greidda hjá opinberum eða einkareknum tryggingafélögum," segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri ísfirska lækningarvörufyrirtækisins Kerecis, í samtali við Fréttablaðið.

Þar er greint frá því að bandarísk heilbrigðisyfirvöld hafi viðurkennt vöru félagsins. Hún er úr þorskroði og ætluð til þess að meðhöndla þrálát sár. Vegna viðurkenningarinnar er varan orðin gjaldgeng hjá félagslega hluta bandaríska heilbrigðiskerfisins, Medicare og Medicaid, en einnig einkareknum tryggingafyrirtækjum sem þjónusta heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum.

Guðmundur segir að með þessu sé fenginn lykill að markaði sem velti 120 milljörðum króna á ári. „Þessi markaður vex um 22% á ári og ef við náum lítilli hlutdeild af því þá hleypur þetta alltaf á hundruðum milljóna króna á ári."