Deila bandarískra skattayfirvalda við svissneska bankann UBS virðist ætla að halda áfram þrátt fyrir að bankinn hafi samþykkti að greiða um 780 milljónir dala í stjórnvaldssek.

Eins og kunnugt er hafa yfirvöld vestanhafs sakað bankann um að hafa hjálpar efnuðum einstaklingum að stofna bankareikninga utan Bandaríkjanna í því skyni að forðast skattgreiðslur.

Við dómssátt milli aðila samþykkti UBS (reyndar eftir tilmælum frá svissneska fjármálaeftirlitinu) að afhenda bandarískum skattayfirvöldum nöfn um 250 – 300 einstaklinga en enn á eftir að ákveða nákvæman fjölda. Í raun mun bankinn aðeins láta skattayfirvöld hafa upplýsingar um þá sem vitað er að sé verið að rannsaka.

En bandarísk stjórnvöld vilja ganga lengra og hafa farið fram það að bankinn afhendi upplýsingar um alla þá 52 þúsund Bandaríkjamenn sem eiga í viðskiptum við UBS. Bæði bankinn og yfirvöld í Sviss hafa neitað því að þær upplýsingar verði allar látnar af hendi.

Þannig sagði John DiCicco, aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna í gær að það væri með öllu ólíðandi að á sama tíma og fólk væri að missa atvinnu sína og húsnæði væri efnameiri einstaklingar að hunsa borgaralega skyldu sína með því að neita að greiða skatta.

Stjórn UBS bankans hefur sagt að bankinn taki fulla ábyrgð á gjörðum sínum og hafi sýnt samstarfsvilja í samskiptum við bandarísk yfirvöld. Hins vegar starfi bankinn eftir svissneskum lögum sem kveði á um bankaleynd og því komi ekki til greina að upplýsa um alla viðskiptavinina, sem fyrr segir telja um 52 þúsund.