Bandaríska lyfjafyrirtækið Barr Phamaceuticals staðfesti í dag kauptilboð sitt í króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva að virði 2,4 milljarðar Bandaríkjadala (169 milljarðar íslenskra króna), samkvæmt upplýsingum frá króatíska fjármálaeftirlitinu (HANFA).

Skilafrestur Actavis rann út í gær og hefur HANFA 14 daga til að fara yfir tilboðið og samþykkja það.

Kauptilboð Barr hljóðar upp á 743 króatískar kúnur á hlut en kauptilboð Actavis, sem setti í gang söluferlið í mars, nemur 723 kúnum á hlut. Bæði fyrirtækin hafa einnig sykrað kauptiboð sín með 12 kúnu arðgreiðslu á hlut.

Sérfræðingar búast almennt við að slagurinn um Pliva eigi eftir að harðna og að Actavis og Barr eigi eftir að hækka kauptilboð sín enn frekar. Actavis hefur einnig fengið leyfi til að gefa út nýtt hlutafé að virði 200 milljónir evra til að fjármagna hugsanlega yfirtöku á Pliva, en fyrirtækið hefur einnig tryggt sér sambankalán til að styðja við kaupin.

Actavis mun birta sex mánaða uppgjör sitt eftir lokun hlutabréfamarkaðar í dag.