Svo virðist sem hagkerfi Bandaríkjanna standi betur en gert hafði verið ráð fyrir en nýjar tölur um framleiðslu og hagvöxt hafa komið þægilega á óvart að sögn fréttavefs Reuters.

Þannig mældist hagvöxtur í Bandaríkjunum 3,3% á öðrum ársfjórðungi sem var nokkuð yfir væntingum greiningaraðila.

Í dag voru síðan birtar tölur sem gefa til kynna að umsvif þjónustugeirans vestanhafs hafi aukist í ágúst. Þannig hækkaði ISM vísitala Supply Management í ágúst um 50,6 stig en var 49,5 stig í júlí.

Viðmið vísitölunnar eru þau að ef hún mælist yfir 50 stig er litið svo á að þjónustugeirinn sé að vaxa.

Þá benda tölur frá viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna, sem einnig voru birtar í dag, til þess að framleiðsla vestanhafs hafi aukist umfram væntingar á öðrum ársfjórðungi þessa árs.

Þannig hefur framleiðsla á ársgrundvelli aukist um 4,3% en á fyrsta ársfjórðungi jókst hún aðeins um 2,6% sem var töluvert undir væntingum bæðir greiningaraðila og eins Seðlabanka Bandaríkjanna.

Launakostnaður fyrirtækja hefur einnig lækkað um 0,5% á ársgrundvelli en hafði á fyrsta ársfjórðungi þessa árs aukist um 1,2%.

„Ef launakostnaður vex hraðar en framleiðsla er það ávísun á vaxandi verðbólgu,“ segir viðmælandi Reuters og bendir á að þetta gefi til kynna að atvinnurekendur vestanhafs hafi brugðist með ágætum við efnahagsástandi og hagrætt í rekstri sínum.