Bandaríska ríkið vonast til að fá 7,6 milljarða dala, tæpa 960 milljarða íslenskra króna, með sölu á 15,9% hlut sínum í bandaríska fjármála- og tryggingarisanum AIG. Að sölu lokinni hefur ríkið selt öll hlutabréf sín í fyrirtækinu. AIG var við það að fara í þrot vegna lausafjárskorts í september árið 2008 og varð ríkið að koma fyrirtækinu til bjargar með lánalínum og kaupum á slæmum eignum. Eitt skipti dugði ekki til. Ástæðan fyrir vandræðum AIG voru m.a. kaup á undirmálslánum og aðrar slæmar fjárfestingar.

Þegar upp var staðið hafði ríkið lagt AIG til 182,5 milljarða dala, jafnvirði rúmra 20 þúsund milljarða íslenskra króna, í skiptum fyrir 92% hlut. Björgun AIG var einhver sú viðamesta sem ráðist hefur verið í. Hún vakti mikla reiði í Bandaríkjunum. Ben Bernanke, aðalseðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði m.a. fátt hafa reitt hann jafn mikið til reiði í fjármálahruninu og það þegar bandarísk stjórnvöld ákváðu að bjarga AIG frá gjaldþroti í kjölfar vandræða sem fyrirtækið rataði í vegna áhættusækni stjórnenda þess.

Björgunaraðgerðin hefur ekki komið ríkinu verr en svo að búist er við að hagnaður hins opinbera muni nema 22,7 milljörðum dala, jafnvirði um þrjú þúsund milljörðum króna.

Fra kemur á vef bandaríska dagblaðsins Los Angeles Times , að gengi í viðskiptunum verði 32,5 dalir á hlut. Útboð með bréfin hófst í dag og er búist við að henni ljúki á föstudaginn.