Bandaríska fjármálaráðuneytið er sagt leggja grunninn að sölu á hlutabréfum í tryggingarisanum AIG. Ríkið forðaði félaginu frá gjaldþroti haustið 2008 þegar það og bandaríski seðlabankinn lögðu félaginu til 182 milljarða dala í skiptum fyrir 92% eignarhlut. Hlutur ríkisins nam 125 milljörðum dala. Þetta er einhver stærsta björgunaraðgerðin í bandarískri fjármálasögu og átti sér enga hliðstæðu.

Ef af verður mun ríkið selja hlutabréf í AIG fyrir jafnvirði um fimm milljarða dala. Þetta verður önnur hlutafjársala ríkisins en í fyrra fékk það 5,8 milljarða dala fyrir hlut sinn í því. Gangi áætlanir eftir mun bandaríska ríkið eiga 63% hlut í AIG eftir söluna. Fyrirtækið mun eftir sem áður skulda ríkinu 39 milljarða dala, jafnvirði tæpra 5.000 milljarða íslenskra króna. Það er álíka mikið og þreföld landsframleiðsla á árinu ári.

Undir hatti AIG er fjöldi stórra eigna, svo sem fjármála-eignaleigu- og lánsfjármögnunarfyrirtæki.

Í bandaríska stórblaðinu The Wall Street Journal kom fram í gær að til viðbótar þeim tæpu 11 milljörðum sem bandaríski ríkiskassinn stefnir á að ná í hús þá hafi fyrirtækinu tekist að greiða til baka 1,9 milljarða dala með sölu eigna. Á með eignanna var tryggingahlutinn 21st Century Insurance.