Bandaríska ríkið tapaði 10 milljörðum dala, jafnvirði um 1.200 milljörðum íslenskra króna, á því að bjarga bandaríska bílaframleiðandanum General Motors. Fyrirtækið fór á hliðina haustið 2008 og tók hið opinbera við því til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar gjaldþrots þess á hagkerfið. Bandaríska fjármálaráðuneytið, sem þá var undir stjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta, dældi í kjölfarið 50 milljörðum dala inn í General Motors og hagræddi verulega í rekstrinum. Í staðinn eignaðist ríkið 61% hlut í General Motors. Bílaframleiðandinn fór svo í þrot um mitt ár 2009 og var það eitt umsvifamesta gjaldþrot í bandarískri iðnsögu.

Bandaríska ríkið hóf að selja hlutabréf sín í General Motors í nóvember árið 2010 og tilkynnti í síðasta mánuði að stefnt væri á að selja allt hlutaféð fyrir áramót. Það er nú raunin og hefur ríkið selt allt sitt.