Tap bandaríska ríkisins vegna björgunar bifreiðaframleiðandans General Motors sumarið 2009 verður um 25 milljarðar dala miðað við gengi bréfa fyrirtækisins. Kemur þetta fram í skýrslu bandaríska fjármálaráðuneytisins, en í fyrri skýrslu hafði verið gert ráð fyrir 22 milljarða dollara tapi. Þegar fyrri skýrslan var birt var gengi bréfa GM þó 15% hærra en það er núna.

Gengi bréfa GM var í dag rétt rúmlega 21 dalur á hlut, en til að koma út á sléttu þarf bandaríska ríkið að geta selt 500 milljón hluti á að minnsta kosti genginu 53 dalir á hlut.

Hugveitan Heritage Foundation hefur einnig legið yfir málinu og er niðurstaða hennar sú að þegar röð kröfuhafa GM var hliðrað til hagsbóta fyrir stéttarfélög starfsmanna hafi félögin fengið um 26,5 milljörðum dala meira í sinn hlut en þau hefðu fengið við venjulegt gjaldþrot. Nær allt tap ríkisins hafi með öðrum orðum endað í vasa starfsmanna.