Bandaríska tollgæslan lagði í febrúar síðastliðnum hald á 10-11 bíla sem biðu útskipunar í höfn í Richmond í Bandaríkjunum og eru bílarnir enn í vörslu yfirvalda.

Bílarnir höfðu verið keyptir af íslenskum aðilum í gegnum bandaríska bílasölu og hafði kaupverðið verið greitt. Þetta staðfestir Gylfi Sigfússon hjá Eimskip í Norfolk.

Á heimasíðu IB ehf. á Selfossi, sem er virkur innflytjandi á bílum frá Bandaríkjunum, er því haldið fram að rannsókn hafi leitt í ljós að um stolna bíla sé að ræða. Þjófagengi hafi breytt verksmiðjunúmerum með fölsunum og tekist þannig að fá bílana skráða til útflutnings.

Á heimasíðunni ib.is er þetta haft eftir bandarísku tollgæslunni. Þar er leitt getum að því að þjófagengið hafi stolið gögnum um afskráða bíla frá tryggingafélögum og stolið síðan sams konar bílum skipulega og breytt skráningu þeirra með fölsunum.

Sé svona í pottinn búið gætu íslenskir kaupendur bílanna tapað þeim bótalaust nema ef fjármunirnir nást til baka af hinu meinta þjófagengi.

Gylfi kveðst ekki geta staðfest þetta og hefur Eimskip ítrekað leitað upplýsinga hjá bandarísku tollgæslunni um málið en ekki fengið svör.

„Tollgæslan hefur stöku sinnum stöðvað útflutning á stöku bíl eða mótorhjóli og viljað skoða pappírana nánar. Þeir stöðvuðu núna eina tíu eða ellefu bíla en ég get ekki á þessu stigi staðfest hvort bílunum hefur verið stolið. Það er hins vegar að vænta svara frá þeim innan tíðar,“ segir Gylfi.

Hann segir Íslendinga ekki tengjast þessu máli að öðru leyti en því að þeir séu kaupendur bílanna. Gylfi telur tvennt geta skýrt það að útflutningur á bílunum hafi verið stöðvaður; annars vegar að þeim hafi verið stolið eða að söluaðilarnir hafi ekki greitt tilskildar fjárhæðir inn til banka.

Gylfi segir að málið sé ekki þannig vaxið að óvenjulega lágt verð hafi verið á bílunum sem hafi vakið grunsemdir um misferli. Slíkt hafi reyndar gerst í gegnum tíðina en þetta mál eigi ekkert skylt við það. „Þetta er búið að dragast óvenjulengi. Við fengum þessa bíla í febrúarbyrjun en við höfum ekkert í höndunum frá tollinum.“