Bandaríski herinn sendi tólf F-15C herþotur og um það bil 350 hermenn til Íslands og Hollands á föstudaginn. Liðsaflinn mun styðja við loftrýmisgæslu NATO við Ísland og stunda æfingar í Hollandi. Herþoturnar verða í Evrópu þangað til í september. CNN greinir frá þessu.

Loftrýmisgæsla NATO við Ísland hefst á morgun með komu fjögurra F-15C orrustuþota og KV-135 eldsneytisbirgðavélar. 150 liðsmenn munu taka þátt í verkefninu ásamt starfsmönnum frá stjórnstöð NATO í Þýskalandi. Ráðgert er að verkefninu við Ísland ljúki fyrir lok apríl, að því er segir á vef Landhelgisgæslunnar.

Bandaríski herinn tilkynnti nýlega að hann hefði áhuga á að auka viðveru sína á Íslandi til að fylgjast með rússneskum kafbátum. Herinn óskaði eftir 2,7 milljarða fjárveitingu á fjárlögum Bandaríkjanna til að gera upp flugskýli á Keflavíkurflugvelli. Hins vegar hefur aldrei verið gert ráð fyrir því í áætlunum Kadeco, þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, að herinn taki aftur yfir hluta af þeim mannvirkjum sem eru á yfirráði félagsins.

Í frétt CNN er haft eftir Magnus Nordenman hjá hugveitunni Atlantic Council að aukin umferð rússneksra orrustuþota, sprengjuflugvéla og kafbáta á Norður-Atlantshafi beini athyglinni í auknum mælinu að svæðinu og geri það að verkum að NATO þurfi einnig að hafa viðveru á svæðinu.

Athugasemd: Fréttin hefur verið uppfærð miðað við upplýsingar af vef Landhelgisgæslunnar um umfang umsvifanna á Íslandi.