Bandarískar hlutabréfavísitölur lækkuðu töluvert í dag, eins og vísitölur í Evrópu. Almennt er ástæðurnar að finna í efasemdum fjárfesta um björgunaráætlun ESB, sem kynnt var fyrir helgi. Í henni er gert ráð fyrir því að stækka björgunarsjóð ESB úr 440 milljörðum evra í 1.000 milljarða evra, en áætlunin gerir ráð fyrir því að stór hluti aukafjárins komi frá öðrum aðilum en aðildarríkjum ESB, t.d. Kína. Ekki hefur tekist að tryggja þessa fjármögnun að öllu leyti.

Þá var hækkandi ávöxtunarkrafa á ítölsk ríkisskuldabréf ekki til að þess að auka tiltrú fjárfesta á evrusvæðinu og svo setti forsætisráðherra Grikklands punktinn yfir i-ið þegar hann sagðist vilja halda þjóðaratkvæðagreiðslu í Grikklandi um björgunaráætlunina.

Dow Jones vísitalan lækkaði um 2,26%, S&P 500 vísitalan lækkaði um 2,47% og Nasdaq um 1,93%.