Áhyggjur af stöðu mála á bandaríska fasteignamarkaðnum héldu áfram að draga gengi hlutabréfa í kauphöllum niður um heim allan í gær. Dow Jones-vísitalan fór niður fyrri 12 þúsund stig í viðskiptum síðdegis í fyrsta sinn síðan í nóvembermánuði. Rót lækkunarhrinunnar, sem hófst á þriðjudag en þá lækkaði Dow Jones um tæp prósent, má rekja til fregna af vaxandi vanskilum afborganna af húsnæðislánum. Þær áhyggjur reyndust myllusteinn um háls annarra markaða enda óttast margir að ástandið kunni að smita út frá sér og kjósa því að fara með fé sitt úr hlutabréfum í traustari eignir.

Hlutabréfavísitölur í Japan, Hong Kong, Malasíu, Indlandi og Ástralíu féllu um meira en tvö prósent á meðan vísitölur í Singapúr og Filippseyjum féllu um meira en þrjú prósent. Bandaríkjamarkaður skiptir sköpum fyrir mörg af útflutningshagkerfum álfunar og má skýra lækkanirnar útfrá því að vísbendingar um samdrátt á bandaríska fasteignamarkaðnum kunna að verða til þess að draga úr eftirspurn þar í landi. Hlutabréfamarkaðir í Evrópu féllu einnig og fundu fjármálafyrirtæki eins og Credit Suisee, UBS og Deutsche Bank einna mest fyrir óróleikanum vegna áhyggja um neikvæðar afleiðingar niðursveiflu á bandaríska fasteignamarkaðnum á rekstur þeirra. Gengi fjármálafyrirtækjanna lækkaði þrátt fyrir að sérfræðinga telja litlar líkur á að aðstæður á fasteignalánamarkaði í Bandaríkjunum smitist yfir Atlantshafið.


Upphafið af óróleika síðustu daga má rekja til þess að bera tók á vísbendingum um vanskil fasteignalána til þeirra lántakenda sem hafa verra lánshæfi en gengur og gerist (e. subprime mortage). Slík lán bera eðli málsins samkvæmt hærri vexti en almenn fasteignalán.

Í krafti upplýsinga um að vanskil á slíkum lánum hefðu hækkað í 13.3% á síðasta ársfjórðungi 2006 og hafa ekki verið hærri í fjögur ár auk frétta af slæmri stöðu útlánastofnanna sem sérhæfa sig í þessháttar fasteignalánum lækkuðu hlutabréf í New York á þriðjudag. Fjármálafyrirtækið New Century Financial var afskráð úr kauphöllinni vegna ótta um að það rambi á barmi gjaldþrots og annarra mála. Gengi í öðru líku félagi, Accredited Home Lenders Holding, hefur beinlínis hrunið í vikunni í kjölfar fregna um fjárhagserfiðleika. Einnig benda hagtölur til að erfiðleikar fari einnig vaxandi hjá þeim sem greiða af fasteignalánum með markaðsvöxtum.

Sérfræðingar eru ekki sammála um hversu djúpstæð vandamál stafa af auknum vanskilum fasteignalána einstaklinga með slakt lánshæfismat en telja að ástandið geti hraðað niðursveiflu á bandaríska fasteignamarkaðnum og haft slæmar afleiðingar fyrir fjármálamarkaðinn í heild. Skjálftavirknin á mörkuðum víða um heim er meðal annars rakin til væntinga um neikvæðar afleiðingar slíkrar niðursveiflu auk tilhneigingar til þess að innleysa hagnað í ljósi þess að teikn eru á lofti um áframhaldandi titring á hlutabréfamörkuðum.

Breska dagblaðið Financial Times hefur eftir David Rosenberg, hagfræðingi hjá Merrill Lynch, að bein þjóðhagsleg áhrif af óróa vegna húsnæðislána til einstaklinga með slæmt lánshæfi þurfa ekki að verða mikil en annað er upp á teningnum þegar kemur að óbeinum afleiðingum. Hann segir að fasteignaverð kunni að lækka hraðar og samdráttur verði byggingu nýrra fasteigna. Auk þess bendir allt til að lækkun fasteignaverð hafi neikvæð áhrif á almenna neyslu gegnum auðhrif (e. wealth affect). Rosenberg segir ekki ólíklegt að búast við því að þetta geti leitt til þess að hagvöxtur verði einungis um 1,5% í Bandaríkjunum á árinu og að atvinnuleysi fari yfir fimm prósent.