Hersveitum Bandaríkjamanna á Kóreuskaganum hefur verið skipað að hafa sig í hæstu viðbragðsstöðu vegna kjarnorku- eða vetnissprengjutilrauna Norður-Kóreumanna á dögunum.

Bandarískri B-52 sprengjuflugvél var flogið yfir Suður-Kóreu um helgina, í fylgd tveggja orustuþota, einnig bandarískra. Líklegast er að yfirflugið hafi verið í skyni áminningar um hernaðarmátt Bandaríkjanna.

Bandaríski herinn hefur lengi haft aðsetur í Suður-Kóreu, í herbúðum á borð við Osan. Þjóðirnar tvær hafa lengi starfað saman í hernaði.

Norður-kóreskir fréttamiðlar greindu frá því fyrir stuttu að fyrsta tilraunasprenging þjóðarinnar með vetnissprengju hefði verið framkvæmd á vegum hersins nýlega. Óvíst er hversu sönn þessi fullyrðing er, en sérfræðingar telja ólíklegt að Norður-Kórea hafi tök á að byggja slíka sprengju.

Vetnissprengjur eru líklega mögnuðustu vopn í sögu hernaðar, en tortímingarmáttur þeirra hleypur á í kringum 50 megatonn. Til samanburðar má nefna að Tsar Bomba, eina vetnissprengja sem sprengd hefur verið, var 1.400 sinnum kraftmeiri en bæði ‘Little Boy’ og ‘Fat Man’ kjarnorkusprengjur Bandaríkjamanna, sem sprengdar voru yfir Hiroshima og Nagasaki í lok seinni heimsstyrjaldarinnar.