Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hækkuðu í dag eftir hressilega dýfu síðustu tvo daga. Þakka skýrendur yfirlýsingum bandaríska seðlabankans þennan viðsnúning. Reyndar segir í frétt CNN að hækkunin sem slík hafi ekki komið á óvart, enda hafi lækkanirnar á mánudag og þriðjudag verið meiri en efni stóðu til.

Þrátt fyrir að bandaríski seðlabankinn hafi temprað hagvaxtartölur sínar fyrir þetta ár niður í 1,6%-1,7% sagðist hann hafa tæki til að gera betur og vera tilbúinn til að grípa til aðgerða til að viðhalda hagvexti í Bandaríkjunum. Má því segja að Ben Bernanke, seðlabankastjóri, hafi haldið þeim möguleika opnum að til frekari efnahagslegra örvunaraðgerða verði gripið ef hann sæi ástæðu til.

Dow Jones vísitalan hækkaði um 1,53%, Nasdaq um 1,27% og S&P 500 um 1,61%.