Hlutabréfamarkaðir vestanhafs áttu sinn versta viðsnúning í gær síðan í upphafi heimsfaraldursins eftir að Jerome Powell seðlabankastjóri tilkynnti um hálfs prósentustigs hækkun stýrivaxta og að bankinn hyggist byrja að vinda ofan af magnbundinni íhlultun síðustu ára.

Dow Jones hlutabréfavísitalan féll um ríflega þúsund stig, ríflega 3%, aðeins degi eftir mestu hækkun hennar síðan á Covid-árinu, upp á hátt í 3%.

Hækkanirnar á miðvikudag komu í kjölfar yfirlýsingar Powell þess efnis að bankinn íhugaði ekki að ráði að hækka stýrivexti um 75 punkta í einu á næstunni – eins og markaðsaðilar höfðu óttast – þrátt fyrir að verðbólga þar í landi sé nú orðin sú mesta í 40 ár.

Mest féllu bréf tæknifyrirtækja í gær, en Tesla lækkaði um 8,3% og Amazon um 7,6%. Bankavísitalan KBW Nasdaq féll um 2,7%.

Í umfjöllun Wall Street Journal er haft eftir greinnigaraðila að erfiðari tímar á hlutabréfamörkuðum á næstunni hafi tekið að renna upp fyrir fjárfestum í gær eftir hækkanirnar vegna léttisins við ummæli Powell daginn áður.