Bandaríski seðlabankinn hefur ákveðið að hækka stýrivexti um 0,25 prósentur og verða þeir nú á bilinu 4,75%-5,0%. Vextir bankans hafa ekki verið hærri frá árinu 2007. Peningastefnunefnd bankans gaf til kynna að von sé á annarri vaxtahækkun á næstunni.

Ákvörðun seðlabankans var í samræmi við væntingar hagfræðinga, þó sumir fjárfestar áttu von á að bankinn myndi stöðva vaxtahækkunarferlið um sinn vegna falls Silicon Valley Bank og Signature Bank.

Í yfirlýsingu sinni sagði peningastefnunefnd bankans að bandaríska bankakerfið væri traust. Áhrif af falli bankanna og óróa á fjármálamörkuðum væru þó óljós. Nefndin kvaðst engu að síður umhugað um verðbólguáhættu.

Seðlabanki Bandaríkjanna birti samhliða vaxtaákvörðun sinni n‎ýja spá nefndarmanna um‏ þróun vaxtaferilsins á næstunni. Flestir nefndarmenn gera nú ráð fyrir að st‎ýrivextir nái hámarki í 5,0-5,25% í ár og verði áfram á því stigi út ‏þetta ár.