Hlutabréfavísitölur í helstu kauphöllum heims hafa lækkað nokkuð það sem af er dags eftir að Ben Bernanke, aðalseðlabankastjóri bandaríska seðlabankans, greindi frá því í gær að í undirbúningi sé að bankinn dragi úr lausafjáraðstoð sinni með kaupum á skuldabréfum síðar á árinu og hætti þeim um mitt næsta ár. Bloomberg-fréttaveitan rifjar upp að bankinn hafi keypt skuldabréf fyrir 85 milljarða dala að jafnaði á mánuði það sem af er árs.

Bloomberg hefur eftir sérfræðingum á markaði að fjármálamarkaðurinn virðist orðinn það háður stuðningi bandaríska seðlabankans að það muni taka hann nokkur ár að venja sig af honum.

Hlutabréfavísitölur lækkuðu um rúmt 1% í gær. Í nótt lækkaði svo Nikkei-vísitalan í Japan um 1,74%. Þá hefur FTSE-vísitalan í Bretlandi fallið um 2,33% það sem af er dags, DAX-vísitalan í Þýskalandi hefur fallið um 2,63% og CAC 40-vísitalan í í Frakklandi farið niður um rúm 2,5%.