Hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Bandaríkjunum í dag en dollarinn hríðféll eftir að Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti að bankinn myndi kaupa skuldabréfa fyrir rúmlega 1000 milljarða dali í þeirri von að auka fjármagnsflæði í landinu og vonandi binda endi á þá lausafjárkrísu sem nú hefur ríkt í á annað ár að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 2%, Dow Jones hækkaði um 1,2% eftir að hafa sýnt rauðar tölur fram eftir degi og S&P 500 hækkaði um 2,1%.

Sem fyrr segir ætlar seðlabankinn vestanhafs að kaupa gífurlegt magn af skuldabréfum á næstunni. Þar af ætlar bankinn að kaupa ríkisskuldabréf fyrir um 300 milljarða dali auk þess sem bankinn mun kaupa skuldabréf sem gefin verða út af lánafyrirtækjum í eigu hins opinbera fyrir allt að 750 milljarða dali.

Að sögn Bloomberg þarf líklega að fara aftur til tíma Seinni heimsstyrjaldarinnar til að finna jafn umfangsmikil kaup hins opinbera á skuldabréfum þegar ríkið keypti svokölluð stríðsskuldabréf til að fjármagna vopnaframleiðslu og stríðsrekstur á sama tíma og atvinnulífinu vestanhafs var haldið gangangi.

„Þetta eru mikil tímamót,“ hefur Bloomberg fréttaveitan eftir viðmælanda sínum. „Við getum í raun dregið línu í sandinn og sagt að hér byrji uppbyggingin á ný.“

Bandaríkjadalur lækkaði í kjölfarið um 3,3% gagnvart evru og hefur ekki verið lægri frá því í september árið 2000 eða 1,35.

Bankar og fjármálafyrirtæki ruku upp í kjölfar tíðinda seðlabankans. Þannig hækkuðu bankar á borð við Citigroup, Bank of America og Wells Fargo um rúm 20%.

Við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 49,4 dali og hafði þá hækkað um 0,5%. Olíuverð hafði þó lækkað um rúmt 1% innan dags en fór hækkandi seinni part dags. Brent olían í Lundúnum lækkaði um 2% í dag og svo virtist sem hráolíuverð í New York myndi stefna sömu leið. Svo var þó ekki og hækkaði olían sem fyrr segir seinni part dags.