Gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum hækkuðu lítillega við opnun markaða í kjölfar þess að bandaríski seðlabankinn lýsti því yfir að hann hygðist bæði kaupa veðtryggða og óveðtryggða fyrirtækjavíxla beint af útgefendum.

Um er að ræða risastórt stökk fyrir seðlabankann og það að forráðamenn bankans ráðist í aðgerðina sýnir hversu alvarlegt ástandið er á fjármálamörkuðum.

Alla jafna lána seðlabankar peninga til banka og fjármálafyrirtækja gegn veði og svo er því fé veitt út í heildarhagkerfið.

Áætlanir seðlabankans miðast hinsvegar af því að sniðganga milliliðina og eiga í viðskiptunum beint við útgefendur – það er að segja sjálf fyrirtækin.

Eðli málsins samkvæmt endurspeglar aðgerðin það algjöra kul sem er á millibankamörkuðum og óeðlilega virkni fjármálamarkaða um þessar mundir.