Skattayfirvöld bandaríska alríkisins, Internal Revenue Service (IRS), eru í skotlínunni í dag eftir að í ljós kom að í tæp tvö ár voru hægrisinnaðir aðgerðahópar, gjarnan þeir sem kenndu sig við Teboðshreyfinguna, sérstaklega skoðaðir. Í Bandaríkjunum er hægt að skrá pólitískar hreyfingar og samtök hjá skattinum og greiða slíkir aðilar ekki skatt. Fjallað er um málið á vef MSNBC .

Í fyrirmælum sem gefin voru út í mars 2010 var ákveðið að sú deild IRS í Cincinnati sem sér um að veita slíka skattleysisvottun ætti að skoða sérstaklega þau samtök sem sótt hefðu um viðurkenningu hjá skattinum og hefðu orðin „Tea Party“, „Patriots“ (föðurlandsvinir) eða „9/12 Project“ í nöfnum sínum. Þá ætti einnig að skoða sérstaklega samtök sem gagnrýnin væru á það hvernig landinu væri stjórnað.

Alls voru 298 samtök skoðuð sérstaklega á grundvelli þessarar ákvörðunar, en í janúar 2012 er sem yfirmenn IRS geri sér grein fyrir því að þeir séu á hálum ís og er skipuninni breytt þannig að skoða ætti sérstaklega samtök sem berjist fyrir minna eða stærra ríkisvaldi, dreifingu upplýsinga um stjórnarskrána og mannréttindakafla hennar og þau sem leggja áherslu á samfélagshagrænar umbætur. Þetta átti að gera það að verkum að bæði vinstri- og hægrisinnuð samtök yrðu skoðuð. Allt fram til febrúar 2012 gerði IRS þá kröfu að samtök tengd Teboðshreyfingunni legðu fram meiri upplýsingar en önnur samtök með umsóknum um skattleysisvottun.

Svívirðilegt og óásættanlegt

Af þessu má vera ljóst að yfirmenn IRS vissu hvað var í gangi hjá stofnuninni, en samt sagði þáverandi yfirmaður IRS, Doug Shulman, við þingmenn Bandaríkjaþings í mars 2012 að engin mismunun milli samtaka eða hópa á grundvelli stjórnmálaskoðana væri í gangi hjá stofnuninni.

Stjórnmálamenn úr báðum flokkum hafa harðlega gagnrýnt framferði IRS í dag. Barack Obama sagði að það væri svívirðilegt ef IRS hefði vísvitandi skoðað samtök íhaldsmanna umfram önnur samtök. Fólk ætti aldrei að fá það á tilfinninguna að skatturinn væri hlutdrægur. „Ég hef enga þolinmæði fyrir slíku og mun ekki umbera það.“

Þingmenn Repúblikana hafa kallað eftir afsögn yfirmanna hjá IRS og ítarlegrar rannsóknar á starfsemi stofnunarinnar. Öldungardeildarþingmaður Demókrata, Joe Manchin, hefur tekið undir síðastnefndu kröfuna og segir athæfi IRS óásættanlegt og óbandarískt. Adam Schiff, fulltrúadeildarþingmaður demókrata, hefur svo sagt að einhverjir verði að taka pokann sinn hjá stofnuninni.