Þeir bankar sem fengu neyðarlán hjá bandarískum stjórnvöldum, bæði síðastliðið haust og í byrjun þessa árs, hafa nú þegar hafið að endurgreiða lánin.

Þannig hafa tíu bankar nú þegar greitt til baka um 68 milljarða Bandaríkjadali en alls fengu þeir tæpa 500 milljarða dala að láni úr 700 milljarða dala sjóð, svokölluðum TARP sjóð (e. Troubled Asset Relief Program).

Á meðal þeirra banka sem þegar hafa endurgreitt hluta lána sinna eru JP Morgan, sem hefur greitt um 25 milljarða dali, Goldman Sachs og Morgan Stanley sem hafa greitt um 10 milljarða dali og US Bancorp sem hefur greitt um 6,6 milljarða dali. Þá hefur kreditkorta og afþreyingarfyrirtækið American Express greitt um 3,4 milljarða dali.

Eins og áður hefur komið fram eru endurgreiðslurnar þá háðar skilmálum, þ.e. af hálfu stjórnvalda. Þannig þurfa bankarnir að sýna fram á að endurgreiðslurnar þyngi ekki rekstur þeirra um of og eftir sé nægt eiginfjárhlutfall til að koma í veg fyrir að bankarnir lendi aftur í vandræðum.

Þá hefur verið orðrómur um það vestanhafs að bankarnir reyni að hraða endurgreiðslum til að koma í veg fyrir frekari afskipti stjórnvalda af rekstri bankanna, m.a. stjórnarsetum og ekki síst bónusgreiðslum til æðstu stjórnenda.

Með endurgreiðslu lánanna ná bankarnir þó að spara sér vaxtagreiðslur og eins arðgreiðslur til stjórnvalda.