Bandarískir bankar eru mun stærri en efnahagsreikningar þeirra gefa til kynna, að því er segir í frétt Financial Times. Thomas Hoenig, varastjórnarformaður bandaríska innstæðutryggingasjóðsins, vill að bankar breyti því hvernig þeir færa afleiðusamninga og sértryggð skuldabréf til bókar í reikningum sínum. Núna mega bankarnir láta nægja að færa nettóstöðu sína í afleiðum í bækur, þ.e. reikna út hvernig staðan væri ef allar afleiður væru gerðar upp í einu og skoða hver staða bankans væri þá. Hoenig vill hins vegar að bankarnir færi afleiðurnar allar inn í bækurnar því núverandi reikningsskilaaðferð feli í raun þá áhættu sem af þeim stafar.

Í frétt Bloomberg segir að ef farið yrði að kröfu Hoenig myndi efnahagsreikningur bandaríska bankakerfisins blása út um 4.000 milljarða dala, eða eins og það er orðað í fréttinni þá er bandaríska bankakerfið nú mun stærra en það lítur út fyrir að vera.

Í takt við Evrópu

Þessi hugmynd Hoenig er ekki úr lausu lofti gripin, því evrópskir bankar verða að færa brúttóstöðu sína í afleiðum til bókar. Bandarískir bankar geta hins vegar haldið stórum hluta af afleiðum og skuldabréfum, sem tryggð eru með fasteignalánum, utan bókar. Slíkar utanbókareignir léku stóran þátt í hruninu 2008, m.a. vegna þess að bankarnir þurftu að kaupa aftur sértryggð skuldabréf sem þeir höfðu selt til sérstakra fjárfestingarsjóða. Hrun tryggingafélagsins AIG kom svo til af því að fyrirtækið gat ekki greitt út tryggingar á afleiður tengdar þessum skuldabréfum.

Ef farið verður að kröfu Hoenig yrðu JPMorgan, Bank of America og Citigroup þrír stærstu bankar heims og Wells Fargo yrði sá sjötti stærsti. Samtals yrðu eignir þeirra 14,7 billjónir dala, eða um 93% af vergri landsframleiðslu Bandaríkjanna. Bankakerfið í heild sinni yrði svo um 170% af landsframleiðslu. Í Þýskalandi er þetta hlutfall 326%.